Spurt um heimildaskrár

Spurning:
Verður að raða heimildaskrá í stafrófsröð eftir höfundum? Má ekki númera heimildir þannig að fyrsta heimildin í heimildaskrá er sú sem maður notar fyrst?

Svar:
Samkvæmt APA-staðlinum, og flestum öðrum heimildaskráningakerfum, á alltaf að raða heimildum eftir stafrófsröð og ekki númera. Við mælum ekki með því að víkja frá þeirri venju.

Spurning:
Hvernig á ég að skrá Hagtíðindi í heimildaskrá? Er þetta ritröð, tímarit eða vefsíða?

Svar:
Samkvæmt því sem segir á vef Hagtíðina voru Hagtíðindi mánaðarrit fram til ársins 2003 en frá og með 2004 eru Hagtíðindi skráð sem ritröð og ætti því að skrá sem slíka. Upplýsingar um skráningu ritraða er að finna hér á leiðbeiningavefnum.  Hagtíðindi eru þó að mörgu leyti eins og tímarit, til dæmis er gefið upp tölublað og árgangur eins og sjá má neðst í þessu skjali. Því mætti einnig skrá einstaka greinar úr Hagtíðindum í heimildaskrá eins og um tímaritsgreinar sé að ræða.

Spurning:
Ég fæ aldrei sömu svör þegar ég spyr hvernig eigi að skrá Aðalnámskrár í heimildaskrá. Getið þið sagt mér hvað er rétt?

Svar:Það er ekkert skrítið að þú skulir ekki fá sömu svörin. Það er óljóst hvers konar heimild Aðalnámskrá er og því er ekki alltaf farin sama leið til að skrá hana. Við mælum með tveimur leiðum, annars vegar að skrá Aðalnámskrá eins og reglugerð eða eins og skýrslu. Þú getur lesið meira um þessar tvær ólíku leiðir hér.