Ólíkar gerðir tilvísana

Form og staðsetning tilvísunar ræðst af því hvaða hlutverki tilvitnunin gegnir í umfjöllun höfundar. Stundum er höfundur einungis að koma efni til skila, í öðrum tilvikum vill hann gera höfundum heimilda hærra undir höfði til að draga fram þátt þeirra í sköpun þekkingar, og í þriðja lagi er hugsanlegt að höfundur sé að rekja sögulega þróun í gangi umræðu eða tilurð þekkingar. Í ljósi þessa má skilgreina þrenns konar áherslu í framsetningu, á efni, höfund eða tíma.


Áhersla á efni

Ef aðaláhersla umfjöllunar er á efni tilvitnunarinnar skal tilvísunin vera í sviga strax á eftir tilvitnun. Þetta á þó aðeins við þegar tilvitnanir eru stuttar, ekki nema tvær til þrjár setningar og ljóst að tilvísunin á bara við um þessar 2–3 setningar – ekki annað efni eða meira.

Margir taka uppeldismál alvarlega og um þau er stundum deilt því þau eru í eðli sínu álitamál (Jón Torfi Jónasson, 2006, bls. 40).

Helstu meinsemdir ritaðs mál hafa verið taldar skalli, uppskafning, lágkúra og ruglandi (Þórbergur Þórðarson, 1946).


Áhersla á höfund 

Gefa má höfundi heimildar meira vægi með því að taka nafn hans út fyrir svigann og láta ártal, og blaðsíðutal sé þess þörf, fylgja í sviga. Ekki þarf að endurtaka nafn höfundar í sviganum.

Jón Torfi Jónasson (2006, bls. 40) segir marga taka uppeldismál alvarlega og að um þau er stundum deilt því þau eru í eðli sínu álitamál.

Þórbergur Þórðarson (1946, bls. 200–212) telur meginmeinsemd ritaðs máls vera skalla, uppskafningu, lágkúru og ruglandi. Af þeim telur hann ruglandina versta og erfiðast að lækna. 


Áhersla á tímasetningu  

Ef áhersla umfjöllunar er á sögulega þróun má taka ártal út fyrir sviga en láta blaðsíðutal standa í sviganum á eftir nafni höfundar. Ekki þarf að endurtaka ártalið innan svigans. Þetta á aðeins við um þegar nauðsynlegt er að geta blaðsíðutals.

Í umræðum um menntamál árið 2006 benti Jón Torfi Jónasson (bls. 40) á að margir taki uppeldismál alvarlega og að um þau sé stundum deilt því þau eru í eðli sínu álitamál.

Árið 1946 flokkaði Þórbergur Þórðarson (bls. 200–212) meginmeinsemdir ritaðs máls í fjóra flokka: Skalla, uppskafningu, lágkúru og ruglandi. Af þeim telur hann ruglandina versta og erfiðasta að lækna.

Árið 1946 var búið að flokka meginmeinsemdir ritaðs máls í fjóra flokka: Skalla, uppskafningu, lágkúru og ruglandi (Þórbergur Þórðarson, bls. 200–212).