Breytingar á tilvitnun í orðalag

Allar breytingar á tilvitnun í orðalag verður að auðkenna.

Ef gerðar eru breytingar á beinni tilvitnun skulu þær alltaf afmarkaðar með hornklofa [ ]. Breytingar geta til dæmis falist í því að bæta við skýringu á orði, skipta út hástaf fyrir lágstaf, skipta út lágstaf fyrir hástaf eða orði fyrir annað orð. Úrfellingar eru táknaðar með þrípunkti . . .


Ef bætt er við skýringu á orði:

„Starfshættir skólanna [leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla] skulu mótast af umburðarlyndi og jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi og ábyrgð.“

„Hugmyndir hans [þ.e. Sólmundar] hafa haft mikil áhrif.“


Ef skipt er út hástaf og lágstaf eða orði fyrir annað orð:

„[G]átur [Heiðreks]“

Eftirfarandi lausn þótti „[t]il eftirbreytni“


Úrfellingar eru táknaðar með þrípunkti:

Höfð eru bil á milli punkta. Ef úrfelling er á milli tveggja setninga er fjórða punktinum bætt við til að gefa það til kynna. Almennt eru úrfellingar aðeins táknaðar inni í tilvitnunum en ekki í upphafi eða við lok þeirra, nema hætta sé á að annars verði tilvitnun misskilin. Úrfellingar úr eigindlegum viðtalsgögnum má tákna á sama hátt.

Í námskrá segir að „[f]agmennska kennara [snúist] um nemendur . . . “

Þá má benda á að baunir þykja bæði „heilnæmar“ . . .  og „mikið lostæti“ eftir því sem í bókinni segir.

Breyta má augljósum innsláttar- og/eða stafsetningarvillum í orðréttum tilvitnunum. Augljósar prentvillur eru þó stundum teknar upp óbreyttar í texta en þá oft auðkennda með [svo] eða [sic] í hornklofa á eftir orðinu.

Álitsgjafi segir „ástæður þessa aukljósar [svo] og áberandi“.

Framherjinn var, eftir því sem í fréttinni segir, „rangstærður [sic] og virtist ekki gera sér grein fyrir því“.