Langar og stuttar tilvitnanir í orðalag

Tilvitnun styttri en 40 orð

Tilvitnun í orðalag er afmörkuð með „gæsalöppum“ ef hún er styttri en 40 orð.

Kennslu- og uppeldisfræðingar hafa margir fjallað um uppeldi barna og unglinga en eftirfarandi hefur Jón Torfi Jónasson (2006, bls. 40) um málið að segja: „Uppeldismál eru í eðli sínu álitamál og stundum deiluefni sem margir taka mjög alvarlega og þau verða fyrir bragðið gjarnan hitamál.“

Kennslu- og uppeldisfræðingar hafa margir fjallað um uppeldi barna og unglinga en Jón Torfi Jónasson (2006, bls. 40) segir þau einmitt vera „í eðli sínu álitamál og stundum deiluefni sem margir taka mjög alvarlega“.

Það að lesa sögu er ekki ósvipað því að hlusta á sögu en eins og fram kemur hjá Silju Aðalsteinsdóttur (1999, bls. 81) hafa allar frásagnir „sögumann, rödd sem talar við okkur sem lesum og segir okkur frá“.

Silja Aðalsteinsdóttir (1999) segir allar frásagnir hafa „sögumann, rödd sem talar við okkur sem lesum og segir okkur frá“ (bls. 81). Það má því segja að það að lesa sögu sé á margan hátt svipað því að hlusta á sögu.

Athugið að punktur getur verið á undan eða eftir gæsalöppum.
Punktur er á undan gæsalöppum ef hann er hluti af tilvitnun.
Punktur er á eftir gæsalöppum ef hann er ekki hluti af tilvitnun heldur afmarkar orð höfundar.

Þegar vísað er til blaðsíðu á eftir tilvitnun í gæsalöppum er tilvísunin á eftir gæsalöppum en á undan punkti.


Tilvitnun lengri en 40 orð

Ef tilvitnun í orðalag er lengri en 40 orð er hún afmörkuð sem sérstök efnisgrein, inndregin og stundum með þéttara línubili og/eða minna letri. Ekki skal nota gæsalappir.

Uppeldismál eru í eðli sínu álitamál og stundum deiluefni sem margir taka mjög alvarlega og þau verða fyrir bragðið gjarnan hitamál. Þau eru líka að mörgu leyti í eðli sínu pólitísk, þótt þau séu ekki nærri alltaf bundin hefðbundinni flokkapólitík. Þau sýna líka betur en margt annað hvað er efst á baugi í huga fólks og spegla því vel hvað er stöðugt og hvað breytilegt í málaflokknum og eru þannig áhugaverður mælikvarði á stöðugleikann. (Jón Torfi Jónasson, 2006, bls. 40)

Fram yfir 1930 voru einungis skrifaðar stuttar sögur handa börnum á Íslandi og yfirleitt gefnar út nokkrar saman, ævintýri, bernskuminningar og hvunndagssögur af ýmsum börnum eða með eitt barn sem aðalpersónu. Upp úr 1930 verður umtalsverð breyting á því, og má tengja þá breytingu við þjóðfélagsþróunina og þróunina í bókmenntum okkar yfirleitt. (Silja Aðalsteinsdóttir, 1981, bls. 149)

Athugið að punkturinn í lok tilvitnunar á að vera á undan tilvísanasviganum.