Tölfræði í lesmáli

Þegar greint er frá niðurstöðum tölfræði í lesmáli þurfa að koma fram nægilega miklar upplýsingar til að lesandinn skilji hvað var rannsakað og hvaða tölfræðiaðferðum var beitt. Hvað teljast nægar upplýsingar fer eftir rannsókninni og aðferðunum. Ekki þarf að vísa til heimilda þegar greint er frá algengum tölfræðiprófum eða formúlum, til dæmis t-prófi eða dreifigreiningu, í lesmáli. Ef notaðar eru sjaldgæfar aðferðir, þeim beitt á óhefðbundinn hátt eða ef grein fjallar beinlínis um ákveðna aðferð eða formúlu þarf að vísa til heimilda.

Tölur eru skrifaðar samkvæmt íslenskri hefð og nota kommur en ekki punkta til að greinar aukastafi frá heilum tölum. Almenna reglan er sú að notaðir eru tveir aukastafir en aðeins einn eða enginn í prósentum. Niðurstöðukafla skal skrifa í þátíð.


Tákn í tölfræði

Eiginleikar þýðis eru oftast táknaðir með grískum stöfum en eiginleikar úrtaks með skáletruðum stöfum úr latneska stafrófinu. Þegar notuð eru hugtök úr tölfræði í lesmáli skal skrifa þau, ekki nota tákn.

Rétt – Meðaleinkunn úrtaks var 6,76 og staðalfrávikið 1,2.
Rangt
– x̄ var 6,76 og S 1,2

Prósentutákn (%) er þó notað í texta þegar það er næst á eftir tölustöfum.

Rétt – Kannað var hversu mörg prósent nemenda á Menntavísindasviði voru konur. Niðurstöður sýndu að 74% nemenda voru konur.
Rangt
– Kannað var hversu mörg % nemenda á Menntavísindasviði voru konur. Niðurstöður sýndu að 74 prósent voru konur.


Niðurstöður settar fram í texta

Þegar greint er frá tölfræðiniðurstöðum í lesmáli skulu koma fram tákn prófsins og viðeigandi upplýsingar sem geta verið mismunandi eftir prófum. Tölfræðitákn eru skáletruð og frelsisgráður hafðar innan sviga. Samkvæmt APA kerfi eru almennt notaðir tveir aukastafir þegar sagt er frá tölfræðiniðurstöðum í lesmáli. Það þarf þó að meta í hverju tilfelli fyrir sig hversu marga aukastafi er eðlilegt og/eða nauðsynlegt að nota. Sett er fram nákvæmt p gildi (p = ) með tveimur eða þremur aukastöfum. Ef p er minna en 0,001 (p < 0,001), eru aukastafirnir þó alltaf þrír og p gildi er aldrei núll. Mikilvægt er að hafa stafabil og skáletur rétt. Ekki eru til neinar ákveðnar reglur um skammstöfun tölfræðihugtaka í íslensku en algengar skammstafanir eru:

M = meðaltal
sf = staðalfrávik


Öryggisbil

Þegar greint er frá öryggisbili í texta skulu að koma fram öryggismörk, ásamt neðri og efri mörkum innan hornklofa. Ýmist er notuð skammstöfunin CI eða að talað er um öryggismörk.

Munurinn var tölfræðilega marktækur miðað við 95% öryggismörk [0,02, 0,22]
Munurinn var tölfræðilega marktækur, 95% CI [0,02, 0,22]

Í hvert sinn sem greint er frá öryggisbili þarf að taka fram við hvaða öryggismörk er miðað. Ef greint er frá fleiri en einu öryggisbili í sömu málsgrein og öryggismörkin eru óbreytt, þarf þó ekki að endurtaka öryggismörkin.

Miðað við 95% vissu voru öryggisbil [0,02, 0,22], [5,62, 8,31] og [3,11, 4,29]


Kí-kvaðrat

Þegar greint er frá niðurstöðum kí-kvaðratprófs koma frelsisgráður og úrtaksstærð fram innan sviga, kí-kvaðrat gildi (með tveimur aukastöfum) og p gildi.

Kí-kvaðrat próf sýndi að ekki var munur á mætingu eftir kyni,

χ2(1, N = 90) = 0,89, p = 0,35.


t-próf

Þegar greint er frá niðurstöðum t prófs koma fram frelsisgráður innan sviga, t gildi (með tveimur aukastöfum) og p gildi.

Tölfræðilega marktækur munur reyndist á milli kynja, t(54) = 5,43, p < 0,001, og reyndust drengir með hærri einkunn en stúlkur.


Dreifigreining (ANOVA)

Þegar sagt er frá niðurstöður dreifigreiningar koma fram bæði frelsisgráður milli hópa og innan hópa  innan sviga, F gildi og p gildi.

Dreifigreining sýndi að tölfræðilega marktækur munur reyndist á milli hópanna, F(1, 145) = 5,43, p = 0,02.


Fylgni

Greint er frá fylgni með frelsisgráðum í sviga og p gildi.

Sterk tengsl voru á milli mætingar í staðlotur og einkunna, r(55) = 0,49, p < 0,001, þeir nemendur sem mættu í staðlotur í tölfræði voru líklegri til að fá hærri lokaeinkunn.


Aðhvarfsgreining

Oft er best að greina frá niðurstöðum aðhvarfsgreiningar í töflu. Ef greint er frá niðurstöðum aðhvarfsgreiningar í lesmáli er eðlilegt að hallatalan komi fram, t gildi, frelsisgráður innan sviga og p gildi.

Niðurstöður aðhvarfsgreiningar voru að við hverja klukkustund sem nemandinn varði í heimanám á viku var líklegt að einkunn viðkomandi hækkaði um 0,48, β = 0,48, t(211) = 3,2, p < 0,001.


Myndræn framsetning tölfræði