APA-staðall og íslensk aðlögun

Útgáfureglur American Psychological Association, 6. útgáfa. Við gerð leiðbeininganna sem hér eru að finna er stuðst við þess útgáfu

Í fræðilegum skrifum er mikilvægt að framsetning efnis sé skipuleg og skýr. Löng reynsla hefur kennt fólki að ákveðin röð efnisatriða er eðlilegri en önnur og skilst betur. Við erum fljótari að lesa og skilja ef framsetning og skipulag fylgir reglu sem við erum vön.

Skráning heimilda og vísun í þær þarf að vera einföld og örugg svo lesandi sé aldrei í vafa um hvaða upplýsingar eru fengnar úr heimild og hvað er frá höfundi ásamt því að vera nákvæm svo lesandi geti með lágmarksfyrirhöfn fundið heimildina og þann stað þar sem efnið var fengið.

Til er nokkur fjöldi kerfa sem notuð eru til að vísa í heimildir og hefur hvert sína kosti og sína galla. Kerfið sem hér er kynnt og notað er á Menntavísindasviði er svokallaður APA-staðall. APA-staðal er að finna í 6. útgáfu Publication Manual of the American Psychological Association (APA) sem eru útgáfureglur Samtaka bandarískra sálfræðinga, 6. útgáfa (American Psychological Association, 2010) og er ætlað til leiðbeiningar höfundum sem skrifa í vísindatímarit sálfræðinga. Nánari upplýsingar og leiðbeiningar um kerfið er að finna á vef APA, blog.apastyle.org.

Útgáfureglur APA taka til fjölmargra atriða, skipulags framsetningar í fræðilegum ritsmíðum, lesmáls á síðu, mynda og taflna, fyrirsagna, leturs, málfars, skammstafana og meðferðar heimilda. Þær hafa að geyma nákvæm fyrirmæli um hvernig á að skrá heimildir og vísa til þeirra þannig að allrar nákvæmni sé gætt og lesandi eigi auðvelt með að finna það efni sem er notað.

Ýmis fræðasvið hafa tekið upp notkun APA-staðals og á þetta sérstaklega við um félags- og mannvísindi ásamt menntavísindum. Reglur APA miðast mjög eindregið við bandarískt samfélag og enska stafsetningu og málnotkun. Leiðbeiningarnar á þessum vef eru staðfærðar að íslenskum þörfum.


Íslensk útgáfa APA-staðals

Við íslenskun leiðbeininganna hefur verið leitað til og stuðst við ýmis rit. Má þar nefna 4. útgáfu Gagnfræðakversins (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007) og leiðbeiningar um meðferð heimilda sem Edda R. H. Waage tók saman fyrir þáverandi jarð- og landafræðiskor Háskóla Íslands. Einnig má nefna bók þeirra Ingibjargar Axelsdóttur og Þórunnar Blöndal, Handbók um ritun og frágang 2006 og leiðbeiningar ritvers Purdue-háskólans í Indiana (Purdue online writing lab) hefur líka reynst vel.


Vafamál og álitamál

Þessum heimildum ber ekki að öllu leyti saman við nýjustu útgáfureglur APA sem hér er miðað við. Við aðlögun reglanna að íslenskum venjum og þörfum komu upp ýmis álitamál og stundum var ekki hægt að fylgja APA-staðlinum að öllu leyti. Taka þurfti afstöðu í mörgum málum, fylgja einum en ekki öðrum, og jafnvel hvorugum. Glöggir lesendur munu því vafalítið rekast á frávik frá því sem þeir eru vanir.

Vakin skal athygli á því að þótt hér séu settar fram ýmsar reglur varðandi meðferð og skráningu heimilda er ávallt um einhver álitamál að ræða. Nemendur eru hvattir til að spyrja kennara sína hafi þeir einhverjar spurningar og kennarar sömuleiðis hvattir til að láta nemendur vita ef þeir vilja víkja frá leiðbeiningunum að einhverju leyti.


Top