Afleiddar heimildir

Afleiddar heimildir eða síðheimildir eru alla jafna samantekt á efni frumheimilda og skýringar á þeim. Afleiddar heimildir geta staðið nálægt frumheimildum eða fjarri þeim með aðrar afleiddar heimildir sem millilið.

Yfirlitsrit og kennslubækur eru dæmigerðar afleiddar heimildir en geta staðið nálægt frumheimildum. Nemendaritgerðir, sem byggðar eru á yfirlitsritum og kennslubókum, eru svo enn fjær frumheimildum.


Hverjir nota afleiddar heimildir?

Fræðimenn, framhaldsnemar og grunnnemar nota afleiddar heimildir en þó í mismiklum mæli. Þetta fer eftir viðfangsefninu hverju sinni, þekkingu þess sem skrifar og mati viðkomandi á því hvers konar heimilda er þörf.

Nemendur sem eru að hefja háskólanám vísa alla jafna langmest í afleiddar heimildir. Þá endursegja þeir meira og minna úr einni heimild langa kafla án þess að leggja mikið til frá eigin brjósti. Þessi notkun heimilda einkennir byrjendur í háskólanámi sem eru að skrifa í fyrsta sinn um ákveðin viðfangsefni og styðjast við afleiddar heimildir.


Að vísa í millilið

Stundum verður ekki hjá því komist að vísa í millilið. Þetta getur til dæmis gerst þegar nauðsynlegt er að vísa í ákveðna heimild sem reynist vera óaðgengileg (til að mynda ef heimildin er ónýt, eigandi vill ekki veita aðgang að henni, hún er aðeins aðgengileg á bókasafni erlendis sem lánar ekki milli safna).

Upplýsingar um frumheimildina getur hins vegar verið að finna í millilið. Til dæmis gæti verið bein tilvitnun í frumheimildina í tímaritsgrein eða fræðilegri bók.

Þegar höfundur telur nauðsynlegt að vitna í óaðgengilega frumheimild þarf hann að vísa til hennar með afleiddu heimildina sem millilið. Með öðrum orðum: Það þarf að koma skýrt fram að höfundur hefur ekki aðgang að frumheimildinni og nýtir sér millilið við að afla sér upplýsinga um hana.

Vísað er til þeirrar heimildar sem höfundur notar og hún skráð í heimildaskrá en grein gerð fyrir höfundi frumheimildar í texta.

Hægt að skrá tilvísun í gegnum millilið með ýmsum hætti. Nemendur eru hvattir til að leita ráða hjá kennara sínum.