Frumheimildir

Frumheimild er sú heimild þar sem fyrst er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar, þar sem fyrst er sagt frá, sett fram lýsing, hugmynd eða kenning eða sú heimild sem stendur næst atburði.

Dæmi um frumheimild eru frásagnir sjónarvotta, skýrslur eða greinar um rannsóknir. Frumheimildir eru hvers konar gögn, sendibréf, fundargerðir, vottorð, lög, tilskipanir stjórnvalda, hlutir, fornminjar, jarðlög, jurtir eða veðurathuganir.


Hvenær á að nota frumheimildir?

Ávallt skal leita frumheimildar ef nokkur kostur er. Í fræðilegum ritum (bæði bókum og tímaritsgreinum) og ritgerðum nemenda í framhaldsnámi er alla jafna ætlast til að notast sé við frumheimildir. Þá er umfjöllun um efnið endursögn úr mörgum heimildum, höfundur sækir einstök efnisatriði víða að og steypir saman í eina samfellda heild. Spurning höfundar og yfirsýn er frá honum sjálfum.


Hverjir nota frumheimildir og hvernig?

Það fer eftir viðfangsefninu hverju sinni hvort frumheimildir eru notaðar eða ekki og þekkingu þess sem skrifar.

Fræðimenn og stúdentar sem eru komnir langt í námi nota gjarnan frumheimildir, enda þekkja þeir viðfangsefnið vel. Þeir nota sem sagt frumgögn, rannsóknargreinar og fræðirit og ekki er tekið meira úr hverri heimild en sem nemur framlagi hennar til þekkingar á sviðinu.

Höfundur velur efnið sjálfur og mótar framsetningu þess. Höfundur sækir einstök efnisatriði víða að og steypir saman í eina samfellda heild. Notast er við margar heimildir.