Skapandi hópverkefni B.Ed.

Hvað er skapandi hópverkefni?

Í grunnskólakennaranámi á Menntavísindasviði Háskóla Íslands er skapandi hópverkefni  valkostur sem lokaverkefni til B.Ed.-prófs.

Undirbúningur að verkefninu hófst vorið 2012. Í kjölfar umræðu um fjölbreytilegar leiðir í lokaverkefnavinnu samþykkti kennaradeildarfundur að gefa grunnskólakennaranemum kost á þessu. Í nánari útfærslu ákvörðunarinnar var áskilið að þátttakendur mættu á reglulega fundi heildarhóps og svo á fundi þeirra vinnuhópa sem til yrðu þegar ferlið væri hafið. Áhersla yrði á sköpun, teymisvinnu, kennslufræði og kennarastarfið. Auk þess gætu kennaranemarnir nýtt sér ipadda og imac-tölvu við rannsóknarvinnu og til hljóð- og myndvinnslu en slík tækjanotkun í skapandi starfi eykst hratt í grunnskólum landsins. Skólaárið 2015-2016 verður skapandi hópverkefni unnið í fjórða sinn undir þessum formerkjum.

Kristín Jónsdóttir lektor í kennslufræði, Kristín Ágústa Ólafsdóttir, aðjúnkt í framsögn og leiklist í skólastarfi, og Guðbjörg Pálsdóttir, lektor í stærðfræðimenntun, leiddu undirbúning verkefnisins og bera ábyrgð á þessari leið lokaverkefna verðandi grunnskólakennara. Þær  annast leiðsögn með hópunum en auk þeirra hafa nokkrir kennarar Menntavísindasviðs og listamenn og kennarar utan úr bæ komið að leiðsögn.

Vorið 2013 luku 26 nemar í grunnskólakennarafræði skapandi hópverkefni til B.Ed.-prófs. Hópurinn ákvað að fást við þverfaglegt nám og námsefni og læsi í víðum skilningi  og fjallaði um umhverfislæsi, tilfinninga- og fjármálalæsi, stafaspjöld, þróun lestrar hjá 4-10 ára börnum en einnig var gerð heimildamynd um vinnuferli skapandi hópverkefnis. Undirhópar skiluðu fimm verkefnum sem mynduðu sýningarheild á Menntavísindasviði 19. apríl 2013.

Brúðuleikhús um þau Von og Trausta, er efni sem nota má til að byggja upp góðan bekkjaranda og styrkja jákvæð samskipti meðal yngstu grunnskólabarnanna. Leikþættirnir, fimm að tölu, eru aðgengilegir á netinu. Það er annað tveggja verkefna sem hópurinn vorið 2014 vann að. Hitt er vefurinn neteinelti.is og stuttmyndin sem honum fylgir. Umfjöllunarefnið er neteinelti; forvarnir, viðbrögð og afleiðingar þess og er ætlað ungmennum, foreldrum og kennurum. Umsjón með neteinelti.is hefur nú verið færð til Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra. Verkefni heildarhópsins voru kynnt á sýningum á Menntavísindasviði í apríl og maí.

Vorið 2015 unnu 25 kennaranemar að skapandi hópverkefni til B.Ed.-gráðu. Hópurinn hittist fyrst 19. nóvember 2014 og hóf að ræða hvað nemunum þætti áhugavert að fjalla um. Niðurstaða þeirra varð að takast á við efni undir þemaheitinu: Skóli er töff! – mikilvægi menntunar, kennaranámið, kennslustofan og kennarastarfið. Verkefnið var kynnt á sýningu 17. apríl.

Meginþema skapandi hópverkefnis vorið 2016 var Samvinna kennara og samþætting námsgreina. Í hópnum voru 15 kennaranemar sem bjuggu til spilið Leið til kveikju, skáldsöguna Ævintýri Gunnu ásamt verkefnum og heimasíðuna Kennsluhugmyndir – Samvinna & samþætting. Markmið hópsins var að búa til efni sem gerði kennurum auðveldara að vinna saman að samþættum verkefnum. Hópurinn hélt sýningu 4. maí þar sem verkefni voru kynnt.

Verkefnin sem unnin hafa verið undanfarin fjögur skólaár undir merkjum skapandi hópverkefnis má skoða í gegnum þessa vefsíðu og meðfylgjandi greinargerðir eru á skemman.is