Hreyfing

Kostir reglulegrar hreyfingar eru margir. Við bætum heilsuna og verðum langlífari ef við hreyfum okkur reglulega í 1-5 klukkustundir á viku, samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar. Áhrif reglubundinnar hreyfingar á hjarta- og æðakerfið eru miklar, hjartað styrkist, þolið eykst, blóðþrýstingurinn lækkar og aukin hreyfing hefur jákvæð áhrif á blóðfituna, einkum HDL (góða kólesterólið). Líkur á að fá hjarta- og æðasjúkdóma minnka  um þriðjung hjá þeim sem stunda reglulega hreyfingu. Einnig getur regluleg hreyfing dregið úr líkum á ýmsum tegundum krabbameina (t.d. ristilkrabbameini og brjóstakrabbameini), þunglyndi, fullorðinssykursýki, beinþynningu, félagslegri einangrun og liðagigt. Reglubundin hreyfing eykur vöðvamassa sem hjálpar til við að auka fitubrennslu, og er því hjálpleg við að halda okkur í kjörþyngd. Breyttir lífshættir valda því að fólk hreyfir sig minna við daglega iðju en það gerði áður. Flest störf eru orðin kyrrsetustörf, svo það er mikilvægt að skipuleggja hreyfingu utan vinnutímans, í að minnsta kosti 30 mínútur á dag. Fólk á öllum aldri ætti að hreyfa sig daglega. Maður er aldrei of gamall til að byrja að hreyfa sig, en auðvitað er æskilegast að venja sig á reglubundna hreyfingu sem fyrst á lífsleiðinni. Mikilvægt er að setja sér raunhæf markmið, byrja rólega og auka svo við hreyfinguna smátt og smátt. Það skiptir miklu máli að velja sér hreyfingu sem maður hefur gaman af og hentar aldri og líkamlegu ástandi, þannig eru meiri líkur á að hreyfingin verði hluti af daglegu lífi. Hreyfing þarf ekki að fara fram innan líkamsræktarstöðva. Það er hollt, gott og hagkvæmt að fara út að ganga, synda og hjóla.

Nokkur góð ráð til að auka hreyfinguna:

  • Slepptu því að nota lyftur og notaðu frekar stigana.
  • Leggðu bílnum lengra frá áfangastað eða skildu jafnvel bílinn eftir heima og hjólaðu  eða labbaðu frekar á áfangastað.
  • Hafðu í huga að minnsta kosti hálftíma hreyfing á dag kemur heilsunni í lag!

 

Heimildir
Hjartavernd. Hreyfðu þig…fyrir hjartað. Sótt 23.3.2013 af: http://www.hjarta.is/Uploads/document/Baeklingar/Hreyfdu_Thig.pdf
Landlæknir. Ráðlegginar um hreyfingu. Sótt 23.3. 2013 af: http://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item11179/version15/NM30399_hreyfiradleggingar_baeklingur_lores_net.pdf
Sunshine and a daisy. (Desember 2012). Afternon exercise may be the best. Sótt 23. mars 2013 af: http://sunshineandadaisy.blogspot.com/2012/12/afternoon-exercise-may-be-best.html