Námsmat

Hvað er námsmat?

Námsmat er athöfn sem felur bæði í sér mat á námsferli og útkomu úr námi. Athöfnin felst í öflun upplýsinga eða gagna um nám, námsárangur og framvindu náms, og túlkun á þessum gögnum út frá gefnum viðmiðum. Viðmiðin geta bæði verið markmiðuð og hópmiðuð. Markviðmiðað mat miðast við hvort nemandi hefur náð þeim markmiðum sem sett hafa verið t.d. samkvæmt aðalnámskrá. Hópmiðað mat tekur mið af innbyrðis samanburði á árangri skilgreinds hóps. Einnig er hægt að nota stöðu einstaklingsins sjálfs sem viðmið og framfarir metnar út frá því.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir tilgangi matsins. Námsmat getur verið notað í þeim tilgangi að bæta nám og kennslu og kallast þá leiðsagnarmat. Námsmat samofið námi og kennslu felst í því að nemendur taka meiri ábyrgð á eigin námi og taka þátt í að meta sig sjálfa og samnemendur sína auk þess sem þeir taka meiri þátt í skipulagi námsins. Lokamat eða samantektarmat fer fram í lok náms og felst í vottun eða dómi um árangur námsins (Meyvant Þórólfsson, 2012).

Til þess að námsmat sé raunhæft þarf það að vera bæði réttmætt og áreiðanlegt (Aðalnámskrá framhaldsskóla, Almennur hluti). Áreiðanleiki segir til um hversu stöðugt eða áreiðanlegt matið er, þ.e. hvort að sama niðurstaða kæmi ef matinu væri beitt á öðrum tíma eða af annarri manneskju. Þeir þættir sem geta dregið úr áreiðanleika matsins eru til dæmis ástand þess sem tekur prófið (t.d. prófkvíði), truflun frá umhverfinu, ónákvæmni þess sem metur og gallar á prófinu sjálfu. Réttmæti eða gildi matsins segir okkur til um hver gagnsemi þess er og hvort það er að gefa okkur þær upplýsingar sem við þurfum til að meta hvort markmiðum er náð. Ef matsatriðin spegla námsmarkmiðin og það námsefni sem stuðst var við, aukast líkurnar á háu réttmæti (Meyvant, 2011, 2012). Til þess að tryggja áreiðanleika matsins munum við láta samkennara okkar lesa yfir skriflega prófið áður en við leggjum það fyrir nemendur okkar.

Upp geta komið ýmis álitamál við námsmat. Við þurfum að gera skýra grein fyrir því hvað og hvernig á að meta og út frá hvaða viðmiðum og með hvaða fyrirvörum (Meyvant, 2012). Með tilkomu ,,skóla fyrir alla‘‘ er tekið tillit til margbreytileikans og námsmat verður því, eins og nám, að vera við hæfi allra og án aðgreiningar. Þetta munum við hafa að leiðarljósi við okkar námsmat og taka tillit til aðstæðna hverju sinni, hvort sem um er að ræða fötlun eða önnur tilvik sem geta haft áhrif á nám og námsárangur. Einnig þurfum við að hafa í huga að ýmsir þættir í námsefninu ,,Láttu þér líða vel‘‘ geta krafist frekar huglægs mat en hlutlægs. Huglægt mat felur í sér að nemandinn hefur meiri sveigjanleika og frelsi í svörum og því er áreiðanleiki matsins ekki eins mikill (Meyvant, 2011). Við munum þó beita hlutlægu mati í vissum námsþáttum á skriflegu prófi og auka þannig áreiðanleika matsins.

Heimildir:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Aðalnámskrá framhaldsskóla, Almennur hluti. Bls. 26.

Meyvant Þórólfsson. 2011. Mat á námsárangri og námsframvindu með skriflegum prófum. Bls. 1,2,4, og 8.

Meyvant Þórólfsson. 2012. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Samantekt um námsmat. Námskeið um nám og kennslu. Bls.2-9.