Um námsmatið

Hver er tilgangur matsins?

Námsmat er órjúfanlegur þáttur í námi og kennslu. Það veitir leiðbeinandi upplýsingar um hvernig og hvort settum markmiðum námsins hafi verið náð og hvernig tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár. Námsmat stuðlar að námshvatningu og hjálpar til við að meta hvaða aðstoð nemendur þurfa til að ná settum markmiðum (Aðalnámskrá framhaldsskóla, Almennur hluti).

Tilgangur okkar með námsmatinu er að meta:

 • Hvar nemendur okkar eru staddir þekkingarlega í upphafi námsins.
 • Hvernig náminu miðar og hvað þurfi að bæta í kennslu og námi meðan á náminu stendur.
 • Hvort nemendur hafi í lok námskeiðsins náð að tileinka sér þá þekkingu og þau markmið sem sett voru í upphafi.

Hvað á að meta?

Sú lykilhæfni sem við munum meta er sú að nemendur geti tileinkað sér aðferðir námskeiðsins í lífi og starfi. Aðferðirnar eiga það sameiginlegt að ef þeim er beitt reglulega og þær innleiddar í daglegt líf, geta þær eflt heilbrigði og vellíðan. Samspil og jafnvægi á milli reglulegrar hreyfingar, hvíldar, slökunar og andlegra og líkamlegra æfinga ásamt hollu mataræði spilar stóran þátt í einum af sex grunnþáttum menntastefnu Aðalnámskrá framhaldskóla (2011) því sá þáttur snýr að heilbrigði og velferð. ,,Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla‘‘. 

Samkvæmt Norman Gronlund (2002) er ráðlegt að styðjast við ákveðin flokkunarkerfi þegar meta á ákveðna námsþætti. Gronland styðst sjálfur, ásamt mörgum öðrum, við flokkunarkerfi Benjamins S. Bloom frá 1956. Sú flokkun nær yfir þrjú meginsvið en þau eru þekkingarsvið, viðhorfa– og tilfinningasvið og leiknisvið. Þekkingarsviðið, sem einnig hefur verið nefnt vitsmunasvið stigskiptist í ákveðna flokka og tökum við fyrst og fremst mið af þeim flokkum við okkar námsmat. Flokkarnir eru þekking, skilningur, beiting, greining, nýmyndun/nýsköpun og mat. Við munum meta hvort nemendur hafi náð grunnþekkingu á þeim leiðum sem við kynnum á námskeiðinu, hafi skilning á mikilvægi þeirra, kunnáttu í að beita þeim, geti miðlað þeim til annarra á frumlegan og fræðandi hátt og sýnt gagnrýna hugsun. Leiknisviðið skiptist í eftirfarandi flokka: Skynjun, viðleitni, svörun/eftirlíking, vélræn leikni, flókin færni, aðlögun og skapandi tjáning. Við munum taka mið af þessum þáttum við mat á verklegri færni í tímum. Einnig munum við horfa til viðhorfa- og tilfinningasviðs og stuðla að því að nemendur rækti með sér jákvæð viðhorf til heilbrigði og velferðar (Meyvant Þórólfsson , 2011), það eykur líkurnar á því að nemendur tileinki sér þessar aðferðir. Tekið verður tillit til mætingar, frammistöðu, samvinnu, áhuga, þátttöku og virkni í kennslustundum og verkefnum ásamt útkomu úr verkefnum og skriflegu prófi.

Að námskeiðinu loknu á nemandinn að:

 • Þekkja helstu leiðir til almenns heilbrigðis og vellíðunar. Til dæmis hreyfing, hvíld, slökun, nudd, æfingar og hollt mataræði.
 • Vita hvernig hægt er að auka reglulega hreyfingu til dæmis með hjólreiðum, göngu og sundferðum. 
 • Skilja hvaða áhrif slökun hefur á líkama og sál og kunna leiðir til slökunar.
 • Þekkja mismunandi ilmolíur og virkni þeirra.
 • Vita hvað gjörhygli er, hvaða áhrif hún hefur og hvernig henni er beitt.
 • Geta nefnt nokkur dæmi um hvaða áhrif ónóg vatnsdrykkja hefur á líkamann.
 • Skilja hvers vegna er mikilvægt að tileinka sér aðferðir námskeiðsins og gera sér grein fyrir áhrifum þeirra á heilsu og líðan. Skilja: hvernig við getum skerpt einbeitingu og meðvitund með gjörhygli og hugleiðslu, hvernig við getum bætt liðleika og dregið úr verkjum með nuddi og jóga, hvernig við getum aukið hollustu og heilbrigði með bættu mataræði og aukinni vatnsdrykkju, hvernig við getum bætt andlega og líkamlega líðan með aukinni hreyfingu.
 • Kunna að beita þessum aðferðum og vita hvenær þær eiga við. 
 • Geta skoðað og beitt hverri aðferð fyrir sig og vita hvað í henni felst. Geta aflað sér aukinna heimilda og kafað dýpra í efnið.
 • Geta nýtt sér þekkingu sína og skilning til að setja fram sínar eigin hugmyndir og leiðir til vellíðunar, byggðar á námsefni námskeiðsins, og miðlað þeim til annarra. Þessi þáttur verður metinn í kynningum þar sem nemendur velja sér eina eða fleiri aðferðir til vellíðunar og kynna fyrir samnemendum sínum. Aðferðirnar sem um er að velja eru: hvíld, slökun, hugleiðsla, hreyfing (gönguferðir, sund, hjólreiðar), jarðtenging, nudd (punktanudd, reflexology, shiatsu), ilmolíur, æfingar (jóga, gjörhygli, augnæfingar, ,,við tölvuna”) og matur og drykkur (hollt mataræði og vatnsdrykkja). Geta tileinkað sér þessar aðferðir í daglegu lífi.
 • Geta sýnt gagnrýna hugsun, tekið afstöðu til hverrar aðferðar fyrir sig og skoðað kosti hennar og galla.

Hvenær og hvernig verður metið?

Við munum safna upplýsingum um frammistöðu og námsárangur nemenda alla önnina með sívirku og heildrænu námsmati, svokölluðu símatiMatskvarði (e. Rating Scale) verður notaður við símatið en hann hefur stigbundinn skala (t.d. 1-5) þar sem hakað er við viðeigandi reit. Í upphafi annar verður tekið stöðumat til að kanna hver kunnátta nemenda á efnisþáttum námskeiðsins er og sjá þannig hvar best er að hefja kennsluna. Stöðumatið fer fram með samtölum við nemendur. Leiðsagnarmat/mótandi mat (e. Formative Assessment for learning) verður gert á miðri önn til að sjá hvar nemendur standa og hvað þarf að leggja áherslu á í kennslunni og náminu. Leiðsagnarmat hefur það hlutverk að styðja við námið og hefur hvetjandi áhrif til áframhaldandi náms. Leiðsagnarmatið mun  einnig gagnast okkur sem kennurum að sjá hvað þarf að bæta í kennslunni. Lagt verður mat á dagbækur sem nemendum er gert að halda og skýrslum unnum úr þeim. Við dagbókarvinnu sína munu nemendur styðjast við óhefðbundinn gátlista sem við höfum útbúið, en þar er sýnt hvaða þættir eiga að koma fram og nemendur skrifa lýsingu á upplifun sinni. Hefðbundinn gátlisti (e. Checklist) er matstæki þar sem hakað er já eða nei í viðeigandi dálk.  Viðmiðatafla (e. Rubric) verður notuð sem matstæki við mat á dagbóka- og skýrsluvinnu, en í henni koma fram stigskipt viðmið, oftast 3-6 stig, um stöðu nemandans á afmörkuðum sviðum (Meyvant, 2011).  Einnig metum við verkefni sem felast í kynningum á völdum aðferðum til vellíðunar. Við munum að auki notast við námsmat samofið námi og kennslu þar sem kynningarnar verða líka metnar með sjálfsmati og jafningjamati (e. Peer Assessment) en það felst í því að nemendur eru sjálfir virkir í matinu og taka þátt í að meta bæði sitt eigið nám og  samnemenda sinna. Það getur verið mjög gott og hvetjandi, gerir nemendur sjálfsábyrgari og eykur skilning þeirra á námsferlinu, þ.e inntaki náms og mati. Jafningjamat styður vel við námið og er öflugt leiðsagnarmat. En það er mjög vandasamt í meðförum og þarf að hyggja að mörgu þegar því er beitt. Við munum einnig notast við viðmiðatöflu Rubrics við mat á þessum hluta. Á seinni hluta annarinnar verður lagt fyrir skriflegt próf þar sem lagt verður mat á hve mikla þekkingu nemendur hafa tileinkað sér.  Lokamat eða samantektarmat verður svo gert í lok annarinnar og þá verður bæði tekið tillit til ferlisins og útkomunnar og gefin einkunn samkvæmt því (Meyvant Þórólfsson, 2012).

Við munum nota markmiðuð viðmið, þ.e. taka mið af því hvort settum markmiðum námskeiðsins hafi verið náð.

Lokamat eða samantektarmat samanstendur af eftirfarandi:

 • Dagbækur og skýrslur gilda 20%
 • Kynning (hópverkefni) gildir 30%
 • Símat gildir 30%
 • Skriflegt próf gildir 20%

Hver/hverjir meta?

Kennarar námskeiðisins munu sjá um símat, stöðumat, leiðsagnarmat og lokamat. Nemendur taka einnig á sig aukna sjálfsábyrgð í náminu með jafningjamati sem nýtist einnig til leiðsagnar, hvatningar og stuðnings.

Hvar er metið?

Símat fer fram í kennslustofunni og í vettvangsferðum, bæði í kennslustundum og verkefnum. Stöðumat fer fram í kennslustofunni, bæði í upphafi annarinnar með samtölum við nemendur og á seinni hluta annarinnar með skriflegu prófi. Leiðsagnarmat felst í mati á dagbókum og skýrslum nemenda og mati á kynningum sem fara fram í kennslustofunni. Einnig fer jafningjamat fram í kynningunum. Lokamat, sem byggir á ofantöldu, og leggur mat bæði á útkomu og ferli, fer fram í kennslustofunni.

Hvernig verða niðurstöður matsins settar fram og hvað verður gert með þær, hverjum eru þær ætlaðar og í hvaða tilgangi?

Áfanginn er metinn sem tveggja eininga áfangi og nemendur munu fá lokaeinkunn í lok áfangans. Yfir önnina munu nemendur fá umsagnir fyrir verkefnin og þá geta þeir séð yfir alla önnina hvernig þeir standa og hvar þeir þurfa að bæta sig.

Niðurstöður leiðsagnarmatsins verða eigindlegar (e. Qualitative assessment), þ.e. vitnisburður verður gefinn í lýsandi umsögnum sem miðast við eiginleika hvers og eins en er ekki mælanlegur í tölum. Matið miðast við getu hvers og eins og ekki er miðað við aðra nemendur. Lögð verður áhersla á að byggja umsögnina upp á +/-/+ aðferð, byrja á jákvæðum athugasemdum, segja svo hvað má bæta og enda svo á jákvæðri almennri umsögn. Við teljum að sú aðferð, að veita leiðbeinandi upplýsingar um stöðu nemendans gagnist honum best til að sjá hvað þarf að bæta í náminu. Dagbækur, skýrslur og kynningar verða metnar á þennan hátt.

Niðurstöður skriflega prófsins og lokamatsins verða megindlegar (e. Quantitative assessment), þ.e. matið styðst við magnmælingar og tölfræði. Horft er á hvernig nemandinn stóð sig miðað við hópinn og niðurstöðurnar eru settar fram með tölum (Meyvant, 2011,2012).

Dagbækur, viðmiðataflan afhent nemendum.
Skýrslur – umsögn sett á námsnet.
Kynning – umsögn sett á námsnet.
Skrifleg próf – afhent nemendum með einkunn og tekinn tími til að fara yfir það í sameiningu. Einkunn einnig sett á námsnet.

Heimildir:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Aðalnámskrá framhaldsskóla. Almennur hluti. 2011. Sótt 17.apríl  2013 af:http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/adalnamskra-framhaldsskola/. Bls. 21 og 25.

Meyvant Þórólfsson. 2011.  Mat á námsárangri og námsframvindu með skriflegum prófum . Bls. 5, 6, 17.

Meyvant Þórólfsson. 2012. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Samantekt um námsmat. Námskeið um nám og kennslu. Bls. 6-7.