Markmið og kennsluáætlun

Stefnumörkun
Markmið okkar með kennsluefninu er að auðvelda bæði kennurum og nemendum að tileinka sér streitulosandi aðferðir til að bæta lífsgæði sín, því langvarandi streita er mikið heilsufarsvandamál í vestrænu þjóðfélagi. Við teljum að það muni nýtast sérstaklega vel í kennslu þar sem lögð er áhersla á heilbrigði og velferð, en samkvæmt Aðalnámskrá framhaldsskóla (2011) felast grunnþættir menntunar meðal annars í í þeim þáttum. Við uppbyggingu námsskeiðsins vorum við með framhaldsskólanema í huga, en hægt væri að aðlaga námskeiðið fyrir aðra aldurshópa. Þær aðferðir sem við kennum í námskeiðinu má einnig flétta inn í aðra námsáfanga, nemendum og kennurum til heilsueflingar. Að námskeiðinu loknu eiga nemendur að hafa þekkingu á þeim leiðum sem notaðar eru til aukins heilbrigðis og velferðar, hafa skilning á því hversvegna það er mikilvægt að tileinka sér þessar aðferðir, hafa kunnáttu á beitingu þeirra og geta miðlað þeim áfram til annarra.

Námsathafnir og skipulag (nemendahópar, námsumhverfi og tími)
Námskeiðið er hugsað sem 2 eininga áfangi, tvær kennslustundir í senn (80 mínútur), einu sinni í viku. Fyrri kennslustundin hefst á stuttri hugleiðslu. Því næst eru þeir námsþættir sem á að taka fyrir kynntir fyrir nemendum. Tekið verður tillit til kenninga Richard E. Meyers (The promise of multimedia learning: using the same instructional design methods across different media) um 4 þætti miðlunar, margmiðlun, hafa texta inná eða mjög nálægt myndum, taka út óþarft efni og hafa textann skemmtilegan og í samtalsstíl. Þetta er gert í þeim tilgangi að minnka hugrænt álag og auðvelda nemendum lærdóm. Í seinni kennslustundinni verður nemendum svo skipt í 3-4 manna hópa þar sem þeir verða látnir vinna ýmis verkefni sem snúa að aðferðunum, svo sem að prófa þær og skoða á gagnrýninn hátt. Meðal annars verður púslaðferðin notuð en þá kynnir hver nemandi sér ákveðinn hluta af námsefninu og deilir því svo með hinum. Í lok hverra 40 mínútna verða gerðar teygjuæfingar sem eru hluti af námsefninu. Farið verður í göngutúr einu sinni á námskeiðinu, þar sem gjörhygli verður þjálfuð. Nemendur verða hvattir til þess að einbeita sér að líðandi stund og umhverfi sínu. Fyrir tímann er nemendum sett fyrir að kynna sér gjörhygli. Í lok göngutúrsins er sest niður á fallegan stað og þar verður umræða um gjörhygli og upplifun hvers og eins. Einnig teljum við mikilvægt að brýna fyrir nemendum okkar mikilvægi réttrar líkamsstöðu og líkamsbeitingar og koma þannig í veg fyrir stoðkerfisvandamál. Heimaverkefni felst í því að nemendur velja sér þrjár aðferðir sem fjallað er um á námskeiðinu og prófa að tileinka sér eina aðferð í heila viku. Nemendur skulu halda dagbók og skrá hjá sér iðkun aðferðanna og líðan og fylgjast með því hvort samhengi er þar á milli. Mikilvægt er að beita gagnrýnni hugsun og skoða kosti og galla hverrar aðferðar fyrir sig. Nemendur vinna svo 3 skýrslur úr dagbókarfærslunum sem fjalla um aðferðirnar og hvernig þeim fannst að nota þær. Skýrslurnar verða hluti af námsmati og gildir hver skýrsla 10% af lokamati. Símat sem byggt verður á vinnu í kennslustundum og samtölum við nemendur mun gilda 30% af lokamati. Einnig vinna nemendur hópverkefni sem mun gilda 40% af lokamati. Verkefnið felst í að nemendur mynda 3-4 manna hópa og velja saman eina eða fleiri aðferðir til að kynna sér nánar og miðla svo til samnemenda sinna.

Námsumhverfið getur verið hvar sem er, innan og utan kennslustofunnar.

Námsefni, gögn og búnaður
Námsefnið er sett fram í mismunandi miðlum. Við notum PowerPoint glærur, Slideshare, Photostory3, iMovie, Youtube, Photoshop, InDesign og myndbandsupptöku.

Hlutverk kennara
Hér er hlutverk kennara fyrst og fremst að miðla aðferðunum til nemenda sinna, hvetja þá til að prófa aðferðirnar og skoða áhrif þeirra með gagnrýnu hugarfari. Kennarinn verður að sýna að hann tileinkar sér aðferðirnar sjálfur og vera þannig góð fyrirmynd fyrir nemendur sína. Þannig eru meiri líkur eru á því að nemendur tileinki sér aðferðirnar sjálfir í lífi og starfi.